Alkóhólisminn minn, þá og nú, hér og þar......

Trukkalessan ég, er alkóhólisti.

Akkúrat hér og nú, er ég edrú í dag smile

Alkóhólisti er sjúkdómur, hann er áhorfendum einkennalaus/lítill, öðrum fólki, eins og vefjagigt og þunglyndi,- það er að segja þegar maður er edrú. Hann er langt frá að vera einkennalaus þegar maður er í neyslu.

Með fullri virðingu fyrir þeim sem þjást af fyrrgreindum sjúkdómum, þá er sjúkdómurinn alkóhólismi allavega jafnalvarlegur bæði sjúklingnum og aðstandendum.

Munurinn á alhólisma og öðrum sjúkdómum, er hinsvegar sá,- að eftir að ég hef einu sinni í lífinu móttekið aðstoð til að yfirtaka stjórn á mínu lífi og halda sjúkdómnum mínum undir stjórn minni, þá get ég það.  Ég þarf ekki lyf eða líkamlega endurhæfingu,- eina sem ég þarf er löngunin til að halda áfram að vera edrú og þörfin til að viðhalda edrúmennskunni minni.

Til að viðhalda edrúmennskunni minni, fer ég á AA fundi og á mér trúnaðarmenn sem hafa verið edrú mikið lengur en ég, og tala oft við þá,- og hlusta og læri hvernig þeir hafa viðhaldið bataferli sínu.

Þetta er hinsvegar ekki svo einfalt fyrir vefjagigtarsjúklinginn eða þunglyndissjúklinginn, og ég bið afsökunar á samanburðinum,- en staðreyndin er, við erum öll með "ósýnilega sjúkdóma" og erum þar með "svörtu börnin hennar Evu",- eins og oft er sagt.

Ég gafst fyrst upp 1991 og fékk mig lagða inn á Vog í meðferð. Þessi uppgjöf var merki um þann allra mesta styrk sem ég hef sýnt í lífi mínu. Ég fékk fulla meðferð, góða eftirfylgni og AA beið með fullt af góðu fólki, með opna arma,- þegar ég var búin í meðferð.

Ég sótti marga fundi, kom mér upp félagslegu AA neti og var hamingjusöm með að hafa fengið annan séns á nýju lífi.

Já, nýju lífi,- þegar ág sótti um meðferð hafði ég gengið um með sjálfsvígshugleiðingar lengi, ég var full skammar og sektarkenndar gagnvart öllu og öllum, og ég breiddi yfir það alltsaman með gálgahúmor og almennum pirringi útí "kerfið/þjóðfélagið/vinnuna/ félagslega kerfið/kellinguna í búðinni/stjórnvöld/o.s.frv" ekkert var of lítið eða stórt, til að ég gæti ekki kennt því um líðan mína og réttlætt svo ástæðu mína til að fá mér "einn"...Gallin var sá, ég fékk mér nánast aldrei "einn"....Ég fékk mér marga, og svo skyndilega hafði ég drukkið út kvótann andlega, félagslega og fjáhagslega og gat engum kennt um lengur, nema sjálfri mér. En vegna míns sjúkdóms, gat ég ekki hætt hjálparlaust....

Næstu fimmtán og hálft ár var ég edrú, ég sótti fundi og mikið af þeim í ellefu til tólf ár, en þá fór fundarsóknin að minnka. Þegar ég fór erlendis að starfa fyrir Sameinuðu Þjóðirnar, voru þetta orðnir fáir fundir á stangli,- en ég sagði mér ég myndi finna fundi á nýja staðnum í útlandinu. Það fann ég ekki, ég reyndi um stund að vera á netfundum, en það gekk ekki heldur, internetið var ekki nógu gott hjá okkur. Og svo byrjaði ég að minnka samtölin við trúnaðarmennina mína smátt og smátt, klippa á samband við þá sem þekktu einkenni sjúkdómsins í mér, og þorðu að spurja...Ég hafði reyndar verið dugleg að segja að ég væri alki, þegar ég kom til Burundi, svo ég gat ekki drukkið opinberlega, fyrr en ég var flutt til Kongó 2007,- annars hefði ég byrjað mikið fyrr.

Ég drakk til 16.ágúst 2011,- þá tók ég minn síðasta áfenga drykk þangað til nú.

Ég ákvað í þetta skiptið að nú væri nóg komið, ég var búin að spila rassinn úr buxunum....aftur,- ég á betra líf skilið.  Munurinn 2011 og 1991 var að núna vissi ég hvaða sjúkdóm ég hef, og ég veit hvernig ég get náð stjórn á honum.

Munurinn 1991 og 2011 er líka, að í fyrsta skipti varð ég edrú á Íslandi, þar sem sjúkdómurinn er þekktur og viðurkenndur,- núna er ég í Noregi, þar sem svo furðulega vill til að almennt er alkóhólismi ekki þekkt sjúkdómshugtak, og að segja að maður sé alkóhólisti er skömm,- meira að segja eru aðeins fáir aðilar innan heilbrigðisgeirans sem ekki roðna af skömm, ef maður segir að maður sé alkóhólisti. Ég er loksins búin að finna heimilislækni sem er á stofu þar sem allir læknarnir eru í símenntun,- og þekkja alkóhólismann sem sjúkdóm. Samt sem áður hef ég þurft ítrekað að "setja lækninn á pláss", afþví hann þekkir ekki hættu lyfjanotkunar, hjá fólki með minn sjúkdóm. Sem betur fer hef ég þau forréttindi að geta hringt á Vog, og spurt ráða, þegar ég er í vafa...Sem er dásamlegt og ég er afar þakklát fyrir það.

AA fundir á Íslandi eru einstakt og yndislegt fyrirbæri, og héldu mér í bata í meira en áratug.

Sjúkdómurinn alkóhólismi er ekki viðurkenndur í norsku samfélagi, fólk roðnar og lítur undan þegar maður segist vera óvirkur alki,- þetta er nánast verra en að vera margdæmdur nauðgari....Heilbrigðiskerfið slítur með meðferðarúrræði, og skömm er frá að segja, meðferðirnar eru mjög sjaldan eins skilvirkar og fagmannlegar og Íslendingar þekkja þær.

AA fundir í Noregi eru passívir, maður "opinberar" sig ekki, eins og manni var kennt á Íslandi, svo mikil er skömmin enn...Ég sit í þokkabót á svæði þar sem það er einhver útbreiddur misskilningur, til hvers maður á að nota svona fundi, og einu sinni í mánuði eru menn með "tombólu" inni á AA fundi....Grínlaust....

Ég er lánssöm. Þegar rann af mér í annað sinn, þá leitaði ég minna gömlu trúnaðarmanna. Það tók mig tíma og kjark, en egar ég loksins leitaði ásjár þeirra að nýju þá var eins og þeir hefðu bara beðið eftir að ég kæmi tilbaka og nú hef ég þá alla innan síma-seilingar. Við tökum símafundi reglulega, og það heldur mér edrú og hugsandi um mín daglegu viðbrögð.  Í Noregi er þetta ekki svona einfalt. Ég hef setið með einum vini á fundum síðan 2011, hann hefur hvað eftir annað beðið um trúnaðarmann á fundunum,- en ENGINN hefur komið til hjálpar. Það er svo ofar mínum skilningi, á Íslandi voru viðbrögð við svona beiðni alltaf jákvæð. Maður hafði náttúrulega ekki alltaf heppilegasta fólkið, sem bauð sig fram,- en þegar þeir sem höfðu fengið að vera edrú lengi buðu sína aðstoð opinberlega, þá var maður oftast í tryggum höndum.

Svo trúið mér, það er ekki allt best í útlöndum. Ef maður er alkóhólisti sem vill fá hjálp til bata, þá eru það klárlega forréttindi að vera á Íslandi, ekki bara útaf SÁÁ og almennum og félagslegum skilningi heldur útaf mikilvægasta meðalinu,- íslenskt AA, það virkar.

Norskt AA virkar líka fyrir mig þegar ég nota það eins og mér var kennt, en ég bý að mörgum edrú árum,- ég myndi ekki bjóða í mig, ef ég væri að byrja edrúferilinn hér,- trúi ekki að ég hefði verið edrú lengi.

Ég er þakklát að vera edrú í dag. Ég er hamingjusöm að hafa yfirgefið Bakkus aftur, og hygg ekki á frekari sambúð við hann að sinni. Einn dag í senn eins og menn segja, en til að vera ekki með neina "endurfunda möguleika" opna, þá segi ég oft að ég vilji vera edrú fram í andlátið, einn dag í einu smile

Ég ströggla oft ennþá með fullt af tilfinningum, til dæmis hefur sumt fólk verið snillingar í áravís að koma inn hjá mér skömm og sektarkennd, en nú hef ég lagt hana til hliðar,- og slæ tilbaka ef mér finnst að mér vegið.

Niðurstaða: í dag veit ég hver ég er, þegar þú sérð mig eða hittir, þá reyni ég ekki að "pakka" mér inn í umbúðir, til að þér líði betur,- ég er akkúrat eins og ég er. Ég man hvar ég var í gær, ég mn líka hvar ég var áðan,- ég man hverja ég hitti, hvað við töluðum um og hvenær við fórum heim. Ég sofnaði og vaknaði í mínu eigin rúmi. Ég hafði ekki höfuðverk, móral eða önnur óþægindi sem drykkja gærdagsins hefði skilið eftir sig.

Ég vaknaði snemma á þessum dimma sunnudagsmorgni með kettinum okkar í mínu rúmi, hjá mínum manni og stjúpsyninum í næsta herbergi. Ég og kötturinn vorum fyrstar niður og ég hlóð eldiviði í ofninn, fékk mér vítamín og morgunmat,- og settist svo fyrir framan tölvuna. Ef mig vantar frekari spennu í dag, þá skelli ég mér í labbitúr eða kannski tek ég veiðistöngina eitthvað hér útá steinana í fjörunni...Dásamlegt, afslappað líf,og engin skömm frá í gær laughing

Góðar stundir, elsku vinir!!

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Góður pistill vinkona. En ég er nú alveg hissa á norðmönnum, hélt að þeir væru lengra komnir en þetta. Kærleikur til þín og gangi þér vel.

Arna Ósk Arnbjörnsdóttir (IP-tala skráð) 23.11.2014 kl. 20:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband