Fullorðin, eða bara stundum?

Gleðilega Hátíð kæru landar, hvar sem þið eruð!

Nú er jólasteikin með öllu meðlæti og ábætisréttum og sælgæti, uppétin og tími til að setja svolítið alvarlegri pælingar á blað. 

Trukkalessan hefur verið svolítið hugsi á þessu ári, þegar kemur að hvaða augum fólk virðist líta persónulega ábyrgð á eigin lífi, heilsu og eignum. 

Og ábyrgð svona almennt.....

Samkvæmt lagabókstafnum erum við fjárráða og sjálfráða frá 18 ára aldri, og eigum þar af leiðandi að taka ábyrgð á eigin ákvörðunum og þeim afleiðingum sem þær kynnu að hafa. 

Það virðist vera mjög pottur brotinn þegar kemur að því að kenna fólki hvað það þýðir að verða sjálf og fjárráða. Fólk virðist vera með það á hreinu að það getur kosið, keyrt, tekið lán, keypt sér bíl og hús og ferðast á eigin vegabréfi án annarra afskipta. 

Mjög flott. 

Sama fólk virðist ekki vera með það á hreinu að þegar maður kýs, tekur maður ábyrgð á stjórn landsins (líka þegar maður kýs ekki, er mér sagt).

Margir eru ekki alveg með öryggi bak stýrið á hreinu, keyra alltof hratt, nota símann í akstri, aka fullir, dópaðir eða annars óhæfir til aksturs,- þrátt fyrir mörg hundruð þúsundum sé spreðað í að kenna öruggan akstur. 

Fólk virðist ekki alveg vera með það á hreinu að ef maður tekur lán, þarf það að borgast. Venjulega borgar þú meira en þú fékkst að láni (vextir og annar kostnaður) og þú þarft að hafa vinnu áður en þú tekur lán, og vita að þú sért borgunarmanneskja fyrir láninu. Ef þú tekur lán þá áttu líka alltaf að taka lánstryggingu, sem skerst í leikinn ef þú veikist alvarlega og getur ekki staðið við afborganir.

Þessi trygging kostar smávegis, en skapar öryggi fyrir þig, þann sem lánar þér og ekki minnst fyrir þína nánustu, sem annars geta þurft að bera ábyrgð á láninu þínu. 

Ef þú kaupir bíl, skaltu vera viss um að þú þarft að eiga fyrir bílaláninu, tryggingum, skoðun, eldsneyti, viðgerðum og öðru viðhaldi og hugsanlegum skemmdum sem þú veldur á eigum annarra ef þú tímir ekki að tryggja almennilega. 

Ef þú kaupir hús áttu líka að eiga fyrir tryggingum, bæði innbústryggingu og brunatryggingu. Þú þarft að eiga fyrir afborgunum sama hvað gæti gerst (afborgunartrygging!!), þú þarft að eiga fyrir viðhaldi,sköttum og opinberum gjöldum. Annars átt þú að leigja og sleppa með innbústryggingu. 

Ef þú ferðast, áttu að eiga fyrir og kaupa með miðanum,- slysa og ferðatryggingu sem hjálpar þér ef þú værir svo óheppin(n) að slasat eða látast í útlandinu, og fríar fjölskyldu þína þeim áhyggjum og byrði að þurfa að taka lán fyrir sjúkrakostnaði, eða Guð forði þér frá því,- að þurfa að borga heim fyrir kistu. Allar þessar tryggingar er einfalt að nálgast

Ef þú átt gæludýr, áttu að ganga fyrst frá tryggingu sem borgast ef dýrið þitt eyðileggur fyrir öðrum, skaðar aðra (eða önnur dýr) eða verður sjálft sjúkt eða slasast. Tryggingin greiðir líka hlut í aflífun, skyldi koma til þeirrar sorglegu niðurstöðu. 

Ef þér finnst að þú sért orðin(n) nógu þroskaður einstaklingur til að eignast börn, áttu að tryggja börnin þín. Þú átt að hafa fjölskyldutryggingu, sem hjálpar þegar litli engillinn gengur með grjót á bíl nágrannans eða setur skósvertu á hvíta teppið hjá ömmu. Þú átt líka að hafa barnið með heilsu/frístundar- og ferðatryggingu, sem sparar þér mörg áhyggjuefni þegar hlutirnir fara ekki eftir áætlun. 

Og.....Hlutirnir fara mjög oft ekki eftir þínum áætlunum

Íslendingar og líka norðmenn hafa síðustu ár ákveðið að lifa frekar hátt. Þeir eignast mikið, ferðast oft, og hlaða niður gæludýrum og/eða börnum á meðan þeir vinna hörðum höndum fyrir allri dásemdinni. 

En í báðum löndum skilja þeir mikilvægt verkefni eftir. 

Þeir tryggja sig illa og/eða ekki. 

Og þegar kötturinn fær hóstakast, krakkinn dregur grjótið eftir bílhliðinni hjá nágrannanum,makinn handleggsbrotnar á Spáni,eða maður sjálfur deyr í Malasíu......

Þá er öskrað á "SÖFNUN" á Facebook, Twitter, Fréttablaðinu, Stöð", Visi.is og fleiri miðlum. 

Þetta heitir ábyrgðarleysi. Og þeir sem ákvða að borga brúsann í slíkum tilfellum, ýta undir áframhaldandi ábyrgðarleysi og kæruleysi og frekju. 

Hvernig er það í lagi að einhver sem passar vel upp á að tryggja allar sínar veraldlegu eigur og síðan líf og heilsu sinnar fjölskyldu, og tryggir til og með afborgunargetu sína, skyldi heilsan gefa sig.....- eiga LÍKA að fara að borga brúsann fyrir slóðana sem lifa hátt en nenna ekki og tíma ekki að tryggja sig, og vaða áfram með "þetta reddast allt" hugsunina að leiðarljósi? 

Ég heyri afsakanir eins og "Æi, þau eru svo ung"....Ef þau voru nógu gömul til að hafa eigið fé til að missa eigið húsnæði, bíl,gæludýr, barn eða heilsuna í útlöndum....Þá voru þau nógu gömul til að vita að þau þyrftu að tryggja sig. 

Það er siðferðileg skylda allra gagnvart sjálfum sér og sínum nánustu. 

Það er dýrt að tryggja, en þvílíkt sem það er dásamlegt og peningum vel eytt, daginn sem óhappið knýr dyra. 

Ég heyri líka "Æi, iðnaðarmenn sem eru að vinna fyrir sjálfa sig eiga ekki fyrir tryggingum"....?? HA??

Ef maður á ekki fyrir því að tryggja sig þegar maður vinnur hjá sjálfum sér, þá er það kannski merki um að maður ætti að lækka rostann og vinna bara hjá öðrum, þangað til maður hefur efni á öðru. Maður er allavega tryggður í vinnu hjá öðrum, annað er ólöglegt.

Ég á þrjú gæludýr, öll tryggð. Sá sex ára er blendingur, ekkert dýr/hreinræktaður hundur, en mér þykir afar vænt um hann. Hann fékk liðavandamál núna í vor, og verður að ganga á verkjalyfjum það sem eftir er. Vegna gæludýratryggingar, borgaði ég 1000NKR í sjálfsábyrgð við myndatökuna sem uppgötvaði skaðann (myndatakan kostaði 3500NKR) en allt annað borgaði tryggingarfélagið og þeir borga lyfin hans hvern mánuð síðan. Ég reikna með að þurfa að borga sjálfsábyrgð fyrsta mánuðinn á nýju ári, áður en tryggingarfélagið tekur aftur við. Hér erum við að tala um 900NKR annanhvern mánuð......

Mér verður óglatt þegar ég sé fólk koma með veika eða slasaða hunda og ketti, sem hafa kostað ógrynni fjár (hreinræktuð) og grenja svo á netmiðlunum afþví að dýrir vektist eða slasaðist. Afhverju er verið að biðja okkur sem borgum tryggingar fyrir okkar dýr, að borga fyrir slóðana sem eiga ekki fyrir því að eiga dýr? 

Hvar er ábyrgðarkenndin? 

Hvar er skömmin? 

Fólk á nefnilega stundum að skammast sín, og ef að maður ætlar að "leika fullorðinn" og getur ekki hugsað sér að taka allan pakkan, með ábyrgðinni líka, þá á maður að skammast sín og hætta að láta eins og að maður sé svaka "kall/kjella" sem eigi/geti hitt eða annað, ef það er svo bara spilaborg án tryggingar.

Síðast en ekki síst.

Ég er ákafur talsmaður þess að björgunarsveitirnar séu einu félagasamtökin sem hafi leyfi til að selja flugelda á Íslandi fyrir áramót. Fréttir kvöldsins, urðu til þess að ég missti þá ákefð útum gluggann. 

Ef maður fær ábyrgð eins og að selja sprengiefni og handla með sprengiefni,- þá á maður fjandakornið að vakta það eftir atvikum!!

Að skilja flugelda eftir í óvöktuðu húsnæði, án vaktmanns og myndavéla,- er það allra bjánalegasta sem ég hef heyrt lengi. Og þetta frá félagsskap sem hvetur landsmenn til að sýna ábyrgð yfir óveður og aðrar náttúruhamfarir!!! 

Hvað eru menn að hugsa!!!?? 

Mér finnst ennþá að engir aðrir en björgunarsveitirnar eigi að fá að selja flugelda, en Björgunarsveit Kópavogs hefur fyrirgert rétti sínum til að vera treystandi fyrir vörslu sprengiefna og ætti að fara í nokkurra ára sölubann fyrir ábyrgðarleysi í meðferð sprengiefna. Þetta er sorglegt, en staðreynd engu að síður. 

Ég óska ykkur öllum farsældar á komandi ári, og vona að þið farið að beina ykkar uppkomnu börnum (og ykkur sjálfum) inná brautina "í upphafi skyldi endinn skoða" og láta fólk taka ábyrgð á sér og sínum gjörðum. 

Góðar stundir

Trukkalessa með Tryggingu fyrir öllum sem hægt er að tryggja.  


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband