Einhversstaðar las Trukkalessan að maður gæti tekið ljónið úr frumskóginum, en aldrei tekið frumskóginn úr ljóninu.
Það sama á við oss þorpara, við erum alin upp í þorpi á landsbyggðinni, og þrífumst best í svipuðu umhverfi.
Þetta hefur Trukkalessan upplifað sterkt í sínu nýja umhverfi, í Narestø,- sem er lítil bæjarþyrping með u.þ.b. 40 heilsárs-íbúa.
Narestø var í gamla daga lægi stórra seglskipa, húsin umhverfis "skippers húsið" voru byggð af áhafnarmeðlimum skipanna, húskörlum og þeirra fjölskyldum.
Í ágústlok leigðum við okkur timburhús sem var byggt 1860, og er hið eina sanna "skippershus", það stendur hér við bugt eina,- þar höfum við okkar eigin bryggju, pínulitla baðströnd, umvafið svakalega skemmtilegum görðum (má þar nefna "hafnargarðinn" sem er grasi vaxinn en hellulagður heilt niður að bryggjunni)og ávaxtagarðinn, sem er bakvið húsið) og umfram allt, frið og ró
Hér er Paradís fyrir okkur hjónin, sem viðjum helst eyða okkar frístundum í að veiða fisk,- hér erum við mitt á sjóurriða svæði, og aðeins fimm til tíu mínútna stím frá þorsk og ýsumiðum Tær snilld....
Til að gera góða hluti betri, þá er veran hér hrein endurkoma þorparans í Trukkalessunni, verulega notaleg upplifun.
Fyrir 20 árum sátu tvær konur í Narestø á spjalli. Þær eru mitt í hversdagsslúðrinu, þegar þær sjá kvenmann rölta hjá....Önnur konan segir þá við hina "að þetta sé nú orðið svo hér, að maður þekki ekki alla íbúana lengur, alltaf eitthvað nýtt fólk að flytja inn". Vinkona hennar starði á hana um stund, en tilkynnti henni svo að hin rússneska Jelena hefði búið í Narestø í nærri fjögur ár, og sannarlega væri orðið skammarlegur "stórborgarbragur" á hverfinu, ef fólk þekkti ekki lengur sína nágranna. Þessi kona lér ekki þar við sitja, en hóf mánaðlegt "jentetreff" (konufundur) í Narestø, sem enn er í heiðri haft og einasti tilgangur fundarins er að missa ekki sjónar á að þekkja nágranna sína í sjón.
Af hinni rússnesku Jelenu er það að segja, að Trukkalessan fékk að heyra að Jelena hefði verið rússneskur verkfræðingur að mennt. Hún var illa gift til Noregs, og fékk að sjálfsögðu ekki sína verkfræðingagráðu viðurkennda hér í landi. Karluglan hennar hélt að hann hefði náð sér í "póstbrúði" og t.a.m. þegar Jelena fór að vinna næturvaktir við þrif í verksmiðju í Kilsund, þá mátti hún ganga til og frá vinnu í niðamyrkri fimm kílómetra hvora leið árið um kring. Ekki útaf því að þau áttu ekki bíl, ekki vegna þess að hann var í notkun yfir hánóttina, meðan Jelena var í vinnunni,- heldur bara "afþví"...Jelena vann í þrjú ár á næturvöktunum og menntaði sig á daginn, til að uppfæra verkfræðingagráðuna sína að norskum kröfum. Þegar Jelena var orðin norskur verkfræðingur, sótti hún um skilnað og flutti burt frá Narestø, en eftir situr 20 ára hefð fyrir notalegum mánaðarlegum konukvöldum, allt saman Jelenu að þakka
Kvennafundurinn er ekki flókinn að upplagi; á upplýsingartöflu sem hangir utan á gamla skólanum (næstum í næsta húsi við okkur) er hengd tilkynning oftast á þessa leið "Jentetreff verður haldið þann xx.xx klukkan xx,- munið að taka kaffibollann ykkar, eina litla gjöf og 20kr með"...Svo skeiða sirka 10 til 12 konur hverfisins á fundinn á tilsettum tíma, þamba kaffi og narta kannski í kökubita, henda litlu gjöfinni sinni í haug fyrir úrdrátt á "lodd" seinna á fundinum. Þær skiptast svo á gagnlegum upplýsingum, fæðingum, andlátum, heilsufari, gömlu slúðri og nýju - og umfram allt - bjóða nýflutta velkomna, því enginn skal upplifa að hann búi hér utan samfélags. Þarna hefur Trukkalessunni liðið afar vel og fundist hún vera hluti af samfélagi, þrátt fyrir að í fyrsta skiptið hafi það verið skrýtið að líða eins og smákrakka sem fékk að vera með "fullorðna fólkinu"....Hinar konurnar eru búnar að vera hér "um stund"
Þetta eru ótrúlega afslappaðir og vinalegir fundir, taka aðeins u.þ.b. tvo tíma, en halda fólki í sambandi á þessum nútíma sjónvarpsglápstímum.
Einu sinni á ári er "guttunum" í Narestø boðið með á Jentetreff, og það er á hið árlega jólahlaðborð. Þessi samkoma var ákveðin á október fundinum,- allar skydum við koma með eitthvað að borða, allir skyldu koma með drykki að eigin vali,- og svo var það rætt að kaupa ábætisrétti eða kökur... Trukkalessan sem á rætur að rekja í haug kvenfélagskvenna og eldhúsvalkyrja, varð fyrir andlegu áfalli við að heyra orðum eins og "ábætisréttir, kökur og kaupa" hnýtt saman í eina setningu,- og furðaði sig á að hópur kvenna hefði ekki betri sjálfvirðingu en að þær vildu kaupa tertur á svona jólakvöld... Ótal stór norsk augu (og trúið mér, stór norsk augu eru MIKLU stærri en þau íslensku!) horfðu á Trukkalessuna og spurðu hvort hún vildi þá baka...Ójá, svona grefur einn sér gröf og að sjálfsögðu gat ekki Trukkalessan verið eftirbátur þeirra kvenna sem hún kennir sig við, og svaraði að auðvitað myndi hun gera það!! Þá, og aðeins ÞÁ, sögðu hinar konurnar Trukkalessunni frá að það væru alltaf mikið betri mæting á jólahlaðborðið, sirka 40 til 50 manns...Jamm og já
Í stuttu máli, þá vafraði Trukkalessan grimmt á öllum hugsanlegum og óhugsanlegum uppskriftasíðum Veraldarvefsins, næstu vikurnar. Undanfarin ár hefur Trukkalessan vafrað sjálf, hingað og þangað, og þar með tapað öllum sínum hnallþóruuppskriftum. Loks var kominn einhver beinagrind af ábætismatseðli, og framkvæmdin ein var eftir. Mörgum samanfléttuðum blótsyrðum og burthentum,föllnum botnum seinna eins og sannur Íslendingur lauk Trukkalessan síðustu kökuskreytingunun, fimm mínútur fyrir kvöldverð á föstudaginn 28.11.2014.
Jólahlaðborðið var þægilega afslappað, ekki nokkur manneskja íklædd síðkjól eða stríðsmáluð,- smávegis skreytingar í gamla barnaskólanum en ekkert sem stakk í augun. Og þegar allir voru komnir, tók ein kvennanna frumkvæðið og bauð fólki að gjöra svo vel.
Við hjónin sátum til borðs með fólki sem við höfðum ekki hitt áður,- en margir íbúanna sem eru hér aðeins á sumrin, snúa "heim" í jólahlaðborðið,- svona eins og almennilegir brottfluttir "Þorparar" á Íslandi koma alltaf "heim" á 1.des ballið, réttarballið eða Þorrablótið
Borðfélagar okkar voru þrír, hjón um sextugt afar geðug og skemmtileg að spjalla við og svo Ole, hann er svona "týpa". Ole er kennari, hann virkar 13ára en er í raun alveg að verða 55 ára, gæti ég trúað. Hann er með krullað hár, lítt grár í vöngum, svakalegt skegg og yfirvaraskegg sem er vandlega upprúllað og sjóræningjahring í öðru eyranu. Ole var í litskrúðugu vesti, með enn litskrúðugri trefil um hálsinn og allt þetta toppaði hann með þykkum leðurbuxum, sem vorum listilega þræddar leðurreimum upp báðar skálmarnar... Það kom fljótlega til tals við borðið að Ole er kammerkórsfélagi, þar eð hin hjónin fóru að spyrja um jólatónleikahald. Ole með sinni hljómmiklu rödd, romsaði uppúr sér jólatónleikadagskránni, eins og ekkert væri honum eðlilegra.
Og enn var borðað....
Þegar matarfötin fóru að láta á sjá og brauðkörfurnar að tæmast, stóð Ole á fætur og tilkynnti að þar sem hann væri yngstur Narestø sveina, á þessu jólahlaðborði,- þá væri hefð fyrir að það væri hans hlutskipti að þakka meyjunum fyrir boðið og matinn. Hann tilkynnti ennfremur að þar eð það væru einungis tveir "nýbúar" í hópnum þá fyndist honum við hæfi að bjóða Trukkalessuna og hennar ektamann velkomin með íslensku lagi,- lagið væri ekki jólalag, það væri eiginlega alls ekki í takt við þennan tíma ársins,- en engu að síður þá væri þetta íslenska lagið sem Ole kann bæði lag og texta við.
Trukkalessan datt næstum af stólnum þegar Ole hóf sína raust og söng "Maístjörnuna"...Ekki eitt erindi, og nei og nei...Heldur ÖLL erindin....Dásamlegt
Trukkalessan á jú móðurættir sínar að rekja til gallharðra kommúnista og í báðar ættir er Trukkalessan komin af mjög verkalýðssinnuðu fólki. Frá föðurnum lærði Trukkalessan snemma að maður á að læra öll lög og alla texta, sem eru í okkar "eðli" að kunna, sbr. gamalt, íslenskt....
Og maður á að "syngja með"....
Svo þegar Ole hafði komið útúr sér hálfri fyrstu hendingu, þá tók Trukkalessan undir og söng með honum lagið allt, af lífs og sálarkröftum....Með augun lokuð eiginlega allan tímann til að muna textann, en þegar hún pírði þau eilítið, af og til,- sá hún að aðrir veislugestir sátu agndofa yfir þessum gjörningi. Eina sem Trukkalessan gat vonað, var að það væri ekki útaf ótrúlega lélegum flutningi lagsins. Restina af kvöldinu var fólk þrálátt að spyrja bæði Ole og Trukkalessuna, hvað lengi þau hefðu æft sig....Söngvararnir höfðu báðir jafngaman af viðbrögðunum við "ég hef aldrei hitt hann/hana áður"....
Eftir samsönginn fluttum við okkur öll í betri stofuna, og þar höfðu terturnar og hin íslenska lagkaka verið lagðar á borð með kaffi og tilheyrandi. Trukkalessunni varð létt, allir voru ánægðir með veitingarnar og terturnar voru nánast kláraðar. Trukkalessan brosti með sjálfri sér að Hagkaups-kransakökunni, sem ein vinkvenna hennar hafði komið með,- var greinilega ekki alveg viss um að hægt yrði að stóla á útlendinginn...Ég skil það vel
Fleiri ánægjuvakar frá þessu yndislega kvöldi voru t.o.m. ein brottflutt kona sem gaf sig á tal við Trukkalessuna. Konan hafði búið og starfað í mörg ár í Luxemborg. Hún velti því fyrir sér hvort allir Íslendingar væru söngfólk,- hún hafði nefnilega verið góður vinur Vilhjálms heitins Vilhjálmssonar, söngvara. Við áttum indælis spjall og hún sagði mér að hún hefði ekki vitað hvað hann hefði verið "stór" á Íslandi, fyrr en eftir að við töluðum saman, hún vissi bara að hann hefði sungið sig inn í allra hjörtu, við flest tækifæri í Luxemborg. Notalegt hjartaspjall um einn af mínum uppáhaldslistamönnum.
Einn af mörgum kostum þess að sitja jólahlaðborð í svona "lokal" samfélagi og með svona mikið af vel þroskuðu fólki, er að enginn varð fullur og samkvæminu lauk á þægilegum tíma, engar eftirlegukindur eða partídýr Fullt af skemmtilegum sögum, sönnum og lognum, meiri söngur og "lodd" allir fóru heim með pakka!
Við vorum komin heim fyrir klukkan ellefu um kvöldið, södd og sæl,- og algjörlega kominn "heim" í þetta samfélag í Narestø.
Flokkur: Dægurmál | 30.11.2014 | 09:01 (breytt kl. 09:07) | Facebook
Bloggvinir
Nóv. 2024 | ||||||
S | M | Þ | M | F | F | L |
---|---|---|---|---|---|---|
1 | 2 | |||||
3 | 4 | 5 | 6 | 7 | 8 | 9 |
10 | 11 | 12 | 13 | 14 | 15 | 16 |
17 | 18 | 19 | 20 | 21 | 22 | 23 |
24 | 25 | 26 | 27 | 28 | 29 | 30 |
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Gaman að lesa pistilinn þinn og terturnar flotta , ennþá best að finna fyrir hamingju þinni Steinunn mín. Kær kveðja Vigdís
Vigdis (IP-tala skráð) 30.11.2014 kl. 22:05
Ástarþakkir elsku vinkona :)
Steinunn Helga Snæland, 30.11.2014 kl. 22:22
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.