Trukkalessan er klár á að ef það finnast "fyrri líf",- þá hefur hún soltið í sínu síðasta....
Þegar Trukkalessan hleypti heimdraganum og byrjaði búskap með sínum fyrsta eiginmanni, 16 ára gömul,- var það bensín á maskínur í eigu Gróu á Leiti. Og meðan maskínan malaði, var Trukkalessan að basla við að skilja meiningu þess að vera orðin húsmóðir, útgerðar/sjó-manns-kona og stjúpmóðir þriggja barna, sem komu annað slagið inn á heimilið, og voru ekki svo mikið yngri en hún sjálf.
Útgerðin var með verbúð inni á heimili Trukkalessunar, svo að fljótlega mátti hún læra að elda ofaní 4-6 fullvaxna og matlystuga menn, baka, þrífa og þvo þvotta sem aldrei tóku enda.....
Til allrar hamingju var eiginmaðurinn helmingi eldri en Trukkalessan og hann var alls ekki ónýtur kokkur, og kenndi Trukkalessunni margt og mikið, til dæmis að búa til sósu og pönnukökur,- þarna var hann snillingur!!
Það var ekki um það að ræða að "gúggla" mataruppskriftir, eða hringja "heim" svo Trukkalessan lá í uppskriftarbókum meðan eiginmaðurinn var á sjó, prufaði, henti, brenndi, prufaði aftur og svona gekk lífið smátt og smátt fram á við.
Mannskapurinn sem bjó hjá okkur var afar skilningsríkur og þolinmóður, og Trukkalessan hefur þá grunaða um að hafa oft leikið "Monicu" (fyrir þá sem horfðu á Friends) og látið sem maturinn eða bakkelsið væri gómsætara en það í rauninni var. Trukkalessan hugsar oft hlýlega til þessara fórnarlamba sinna og þakkar þeim að hún gafst ekki upp (-og þakkar Guði sínum fyrir að hún drap þá ekki!!).
Trukkalessan var 18 ára þegar tvö stjúpbarnanna fluttu inn og urðu hluti af matar-fórnarlamba-grúppunni, og 21 árs var hún þegar tvö önnur börn voru fædd. En Trukkalessan vonar að milli 16 og 18 ára hafi hún verið búin að læra helling :)
En,- að pælingum um "fyrri líf"....
Trukkalessunni hefur aldrei skort neitt. Ekki í foreldrahúsum, ekki í neinu af sínum hjónaböndum og ekki heldur þegar hún var send í sveit. Hana hefur oft langað í margt sem hana vantaði alls ekki, en skortur á mat eða nauðsynjum hefur aldrei verið raunin. Trukkalessan hefur samt sem áður kvartað og kveinað eins og góður Íslendingur, þegar hún hefur ekki haft það eins og drottning...En það er önnur saga. Trukkalessunni hefur lengi verið það höfuðverkur, afþví hana hefur aldrei skort mat á sinni ævi,- hversvegna hún er svo matsár,- eða öllu heldur mathrædd.....
Allan sinn búskap, á Íslandi og erlendis hefur Trukkalessan lagt áherslu á að eiga mat í frysti. Á Íslandi og nú í Noregi, með volduga frystikistu þar sem lagt er til hvíldar allskyns góðgæti. Og bæði á Íslandi og í Noregi, upplifir Trukkalessan sömu tilfinningar gegnum frystikistueignina.
Svo fljótt sem Trukkalessan sér einhversstaðar í botninn á kistunni, byrjar skelfingin að naga hana að innan. Hún byrjar að leita leiða að fylla upp sem fyrst, ef ekki fiskast og ekki er slátrutíð, þá er bakað eins og andskotinn, til að fylla upp í "holurnar"....
Er þetta normalt?
Sennilega alls ekki...
En þetta er stór ástæða til að Trukkalessan hefur smá saman öðlast trú á fyrra líf, og er handviss um að hún kynntist sulti og seyru í sínu síðasta lífi....
Við höfum það svo með eindæmum gott, og erum allt of upptekin af því hvað okkur vantar ekki, til að muna að þakka fyrir hvað við eigum mikið.
Við þurfum ekki alltaf að fara í kaldhæðniræðuna um "börnin í Biafra",- heldur bara minna okkur á þá sem hafa ekki þá möguleika sem við höfum og þurfa að taka allt sem þeir fá útúr velferðarkerfinu, frá sínum nánustu eða frá góðgerðarsamtökum.
Trukkalessan er búin að baka nokkrar smákökutegundir í kistuna sína. Fyrir helgi fengum við að gjöf heilt dádýr, sem liggur nú sundurhlutað, hakkað og pakkað í kistunni,- við eigum nokkra urriða þar, nokkur box af bæði humri og leturhumri,- og í morgun kom eiginmaðurinn með tvo væna þorska heim, sem Trukkalessan hefur nú flakað, bitað og pakkað í sömu kistu. Lagakaka til jóla liggur sundurhlutuð í pokum í kistunni líka.Trukkalessan sér ekki til botns og ætti að halda ró sinni þessvegna,- en má ekki gleyma að hún þekkir ekki sult, og hefur aldrei gert.
Trukkalessan vonar að við getum lagt kaldhæðnina til hliðar í eina mínútu,- og minnt okkur á,- hvað við erum lánsöm, við sem ekki þekkjum sult....Alvöru sult.
Góðar stundir :)
Bloggvinir
Jan. 2025 | ||||||
S | M | Þ | M | F | F | L |
---|---|---|---|---|---|---|
1 | 2 | 3 | 4 | |||
5 | 6 | 7 | 8 | 9 | 10 | 11 |
12 | 13 | 14 | 15 | 16 | 17 | 18 |
19 | 20 | 21 | 22 | 23 | 24 | 25 |
26 | 27 | 28 | 29 | 30 | 31 |
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.