Köld slóð - íslenskur DVD :(

Góðan og blessaðan daginn!!

Nú er ég að hamast við að horfa á íslenska efnið, sem ég tók með mér að heiman.  Í fyrradag voru það hin gífurlegu vonbrigði "Köld Slóð"......        Það var ekki myndefnið sem olli mér vonbrigðum, og flestir leikararnir stóðu sig þokkalega,- sumir rúmlega það.  En litirnir í gegnum myndina, eru einhver sú herfilegasta skrumskæling sem ég hef séð, síðan "Blóðrautt Sólarlag"..... 

Afhverju i ósköpunum skyldu menn taka eðlilega náttúrulega liti út, og hafa alla myndina Ísland í blá/grá/hvítum lit,- og allar persónurnar á litinn, eins og þau hafi verið dauð í allavega tvo daga??  Það er svo margt fallegt í fólkinu og náttúrunni heima, hví að slátra því,- þessi hörmung gerði myndina ekkert meira spennandi, en pirraði mig helling, verð ég að viðurkenna.

Söguþráðurinn er svona sambland af "Arnaldi/King/Koontz" en skilaði sér ágætlega, mest leikurunum að þakka.  Helgi Björnsson fór á kostum eins og hans er von og vísa, Þröstur Leó var ekki svo slakur, samt sjokkerandi að sjá hvað hann varð ógurlega gamall, svona blár á litinn!!  Stelpurnar voru báðar flottar, en enn á ný,- litirnir voru þeim ekki til hagsbóta.     Helgi virtist vera sá eini sem slapp við dauðaáhrifin af litunum....Skrýtið!!

Myndefnið, þ.e. hálendi Íslands, var ein af ástæðunum fyrir að ég keypti myndina.  En ég mun ekki halda henni hátt á lofti, því ef ég sæi þetta hálendi, og vissi ekki betur, myndi það heldur senda mér skilaboðin um að fara aldrei þangað, en ekki. 

Ég er bara að vona að "Mýrin" sé betri,- hún er næst á dagskrá,- er að vísu í láni hjá sænska yfirmanni mínum núna, með hans "Ingmar Bergman", vissi ég að hann myndi þola nánast hvað sem er hahahahahahaha

Í fyrramálið fer ég í vinnuferð um Kongó,- til Bukavu og Uvira.                 Ég er að plana að skreppa yfir til Burundi í leiðinni, en það er fimm mínútna akstur yfir landamærin frá Uvira.  Hitta alla gömlu félagana, sem ég vann með þar í tvö og hálft ár,- hlakka mikið til -  og nú þegar búin að fá "dagskrá" sem þessir vinir mínir hönnuðu fyrir mig, fyrir þessa helgi...Frábært!!                                                                          Annars verður þetta mikil vinna, og sennilegt að ég vinni mestallan laugardaginn, svo ekki bara leikur einn  :)

Þangað til ég kem tilbaka,- hafið það sem best elskurnar,- Njótið þessa dags, því hann er ,- gærdagurinn er aðeins minning og morgundagurinn draumur, því er það þessi dagur eingöngu sem skiptir máli!!!

Kveðjur

Steinunn


Mæli með: "How Do You Like Iceland".....

Þar eð ég átti svo ótrúlega rólegan sunnudag, eftir spennandi Rugby leik og annan í hangikjeti á laugardag.  Í þetta sinn voru eingöngu Suður Afríkanar fórnalömb, þar sem við vorum að horfa á SA keppa við Ástrala í Tri-Nations. Hangikjötið sló náttúrulega enn og aftur í gegn,- leikurinn fór eins og best varð á kosið SA54/Aus8 og dagurinn hinn skemmtilegasti.  Eftir fórum við bara snemma inn að lesa og hvíla okkur, enda Ian að vinna alla helgina, náði bara seinni hálfleik af leiknum, til að mynda.

Nú, ég vaknaði eldspræk með kallinum uppúr klukkan sjö á sunnudagsmorgun,- bakaði pönnsur, gróf upp jarðaberjasultu og þeytti rjóma í morgunmat,- þannig að hann fór sæll og glaður,- en sennilega með stórhættulegt kólesteról-magn í líkamanum,- í vinnuna.

Ég dundaði mér nú frameftir,- átti von á Kosovum í kvöldmat.  Þegar mér fór að leiðast, dró ég fram þennan forláta DVD - "How Do You Like Iceland" - sem ég fjáfesti í, í síðustu heimför, en var ekki búin að taka úr plastinu.  Ég hef séð það að maður þarf að ritskoða þessa íslensku heimildardiska, áður en maður lætur útlendinga hafa þá til landkynningar,- alltof mikið af rusli í boði.

Þessi diskur inniheldur viðtöl við 37 útlendinga af 19 þjóðernum, sem allir eiga það sameiginlegt að hafa ýmist starfað eða búið hérlendis, eða haft oftsinnis viðdvöl af atvinnuástæðum.  Það er sáralítið sýnt af landslagi, hinsvegar meira af mannlífi, sem er skemmtileg breyting frá venjunni,- þó mér finnist alltaf yndislegt að sjá íslenska náttúru. 

Viðtölin ganga meira útá karakter Íslendinga, heldur en Landið Ísland.  Stundum fáum við dálítið neikvæða gagnrýni, en oftar jákvæða,- og ekkert sem mér fannst vera ósanngjarnt, að því frátöldu að einn maður þarna talaði um illa þefjandi og jafnvel gult kranavatn, til tannburstunar!!!  Ég var mjög undrandi á þeirri yfirlýsingu?!!  Annars var diskurinn allur hinn skemmtilegasti, fullur af auka fróðleik um land og þjóð,- og Krístín Ólafsdóttir á heiður skilinn fyrir þetta framlag.  

Ég hlakka til að lána þennan disk áfrma til vina minna, það eru alltaf fleiri og fleiri sem langar til að heimsækja eyjuna í norðri.

M.a.o. vil líka minna á keðjubréf sem ég fékk, eitt af örfáum sem ég sendi áfram,- ákall móður sem missti son sinn eftir áralanga baráttu gegn einelti sem beindist að honum.  Ég þekki þessi mál persónulega, og vona að fólk fari nú að þroskast og vakna upp, spyrna við fótum og styðja þá sem eiga undir högg að sækja sökum þess að falla ekki inní "rammann" sem allir virðast eiga að detta inní!!!

P.S. Eins gott að ég slakaði vel á í gær, kallinn í turninum á nágrannamoskunni minni, lagði sig sérdeilis fram í morgun, klukkan hálffjögur,- enda Ramadan að byrja..... Svo það var kallað til bæna af algjörum eldmóð,- ég reikna með að sagan frá í fyrra endurtaki sig nú, lítið sofið þennan mánuðinn  :) 

Með bestu kveðjum og óska ykkur yndislegs dags!!!

Steinunn     


Herinn burt, var sagt í gamla daga.......

Ég er nú einu sinni svo gerð, að ég sé ekki gagnið af Hjálpræðisher á þessum slóðum.  Er þetta ekki mest Háskólafólk, sem býr þarna, annars?

Að sjálfsögðu verðum við einnig að líta til þess, að Rússneski Björninn er vaknaður aftur,- sjálfsagt enn hálfblankur og þ.a.l. fremur máttlítill,- en engu að síður, ef kalda stríðið er að skella aftur á, gætu Bandaríkjamenn hugsað sér að koma aftur á Völlinn.......  Skelfileg tilhugsun, eh?

En er það skelfilegri tilhugsun en einhver trúarsamtök,- það er önnur spurning, sem vert er að velta fyrir sér. Ég persónulega er á móti öllu sem skilgreinir ein trúarsamtök fremur öðrum,- og trúarsamtök sem eru merkt "her"...... Tja, er ekki nóg hernaðarbrölt í nafni trúar, í heiminum?

Og annað hitt, mér finnst einkennilegt að þegar ég kom til landsins í sumar spurði ég sérstaklega eftir hvernig gengi með Moskuna, sem stóð til að byggja, i Reykjavík, fyrir nokkrum árum síðan.  Það voru undarleg svör sem ég fékk, að það hefði verið staðið algjörlega í vegi fyrir úthlutun lóða til Mosku bygginga......

En það virðist ekkert vefjast fyrir mönnum að úthluta Hjálpræðishernum húsnæði??   Er þetta ekki svolítið skökk ímynd sem þarna er á ferð?

Ég bý við hliðina á Mosku, og verð að viðurkenna að ég vil alls ekki hafa slíka byggingu í íbúðarhverfi,- alltof mikið ónæði af næturköllum til bænahalds,- hitt er annað að mér finnst mjög áríðandi að ÖLL trúarbrægð eigi rétt á sínu athvarfi til sinnar trúariðkunar, á Íslandi.

Og hana nú!!!

Góðar stundir elskurnar

Steinunn 


mbl.is Aftur her á Keflavíkurvelli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kjarnafæðis hangikjöt í Kongó,- það er málið!!!

Má til með að deila enn einu matarboðinu með ykkur. Það er mitt aðalstolt, þegar ég get haldið veislu með nær alíslenskum mat, hér úti.

Nú þegar Bruce vinur minn, Breti sem hefur verið hér um árabil,- er á förum til Írak,- ákvað ég að bjóða í Kjarnafæðis-hangikjöt og uppstúf.

Ég náði í íslenskan kavíar útí búð (já, ekki að grínast, íslenskur kavíar, rauður og svartir fæst í verslunum í Kinshasa!!) og bjó út forréttardisk með honum á saltkexi, skreyttum með steinselju og rjómaosti.

Aðalrétturinn var svo Kjarnafæðis-hangikjötið, með SA kartöflum í uppstúf, og belgískum niðursoðnum baunum, gulrótum og rauðkáli.  Gestirnir voru tólf talsins, og ég þorði ekki öðru en að sjóða tvö læri í fyrradag, kaus að framreiða kalt,- mér finnst það alltaf miklu betra. Það er líka öruggara, þar eð á þessum stað veit maður aldrei hvort maður hefur rafmagn þann daginn, sem maður býður fólki heim  :)

Gestirnir voru úr öllum áttum; frá Englandi, Írlandi, Belgíu, Frakklandi, Svíþjóð og Suður Afríku.  Það var einhlítt álit á hinu íslenska hangikjöti; NAMMINAMMINAMM!!!   Aðeins þrjú okkar höfðum borðað það áður, en allir gestirnir fóru allavega tvær ferðir á diskinn, sumir reyndar fleiri, og það segir allt sem þarf, er það ekki?    

Eins og staðan er í dag, get ég ekki hlakkað eins mikið til afganganna, og ég hafði gert ráð fyrir,- nánast ekkert eftir!!!  En ég á í frystinum fjögur læri, og þau verða pikkuð út, eitt af öðru,- nema það sem ég ætla að hafa um jólin......

Þetta er einhver besta landkynning sem ég tek þátt í, það hefur alltaf verið fögnuður með íslenskan mat, hangikjöt, fersk læri, Nóa/síríus konfekt og lakkrís,- þetta er BARA TÆR SNILLD!!!!

Ég þakka fyrir það að koma að heiman, og ég þakka fyrir að við skulum framleiða svona öðruvísi gæðafæði,- alltaf gaman að koma útlenskum vinum í opna skjöldu,- þar sem margir halda að við sitjum alla daga og hámum bara í okkur hval!!!

Kveðjur að sinni

Steinunn


Segjum NEI við ofbeldi..???

Fyrsta Bloggið mitt, eftir heimförina, átti að vera um heimförina og endurkomuna til Kongó,- en NEI,- það verður að bíða betri tíma.....

HVERSLAGS EIGINLEGA KJAFTÆÐI ER Á FERÐINNI ÞARNA????

Eru menn algjörlega dottnir í einhverja tímaskekkju eða hvað??

Segjum NEI við ofbeldi gegn konum???  Er þá ennþá í lagi að berja karla, börn, skepnur, unglinga....Tja,- þ.e. ef börnin og unglingarnir eru karlkyns...???? 

Þessi undirskrift er enn ein lítisvirðingin við allar heilbrigðar konur, og eflaust er undirrótin frá Femínistum um allan heim.  Það geta aðeins verið Femínistar sem eru svo grunnhyggnir að halda að ofbeldi gegn konum sé eitthvert sérstakt fyrirbæri.  Furðulegra er, að íslensk stjórnvöld, sem eiga að vera frá siðmenntuðu landi og málsvarar jafnréttis allrar þjóðarinnar,- skuli dirfast að kvitta undir svo einhliða yfirlýsingu!!! 

Ég ætla svo sannarlega að vona að allir íslenskir karlar muni eftir þessum stjórnmálamönnum/konum, í næstu kosningum, og sýni þeim sömu vanvirðingu og þeim hefur verið sýnd. Sniðgangið þessa einstaklinga ef kostur er, þeir eiga ekki atkvæði ykkar skilið!!!

Ofbeldi ætti aldrei að líðast, algjörlega ótengt kynferði.  Það eru mun fleiri karlar sem bera skaða af ofbeldi en konur,- það er ég klárlega viss um að allar opinberar tölur hafa sannað um árabil.  Jú, gerendur eru oftar en ekki karlar líka, það er staðreynd, en þeir beita mun oftar aðra karla ofbeldi en konur.  Hitt er annað að heimilisofbeldi,- karlar gegn konum og börnum,- eða konur gegn körlum og börnum, er sorgleg staðreynd, þar sem karlar eru líka oftar skrásettir gerendur en konur.  Það gerir hlut kvenna sem gerendur ekkart skárri, og að benda aðeins á hlut karla í því tilliti er mannfyrirlitning og lítisvirðing við jafnréttisstefnuna.

Ég er alveg rasandi yfir þessari frétt og finnst jafnréttisstefna Íslands hafa beðið endanlega hnekki, við erum ekki lengi búin að ástunda jafnrétti, heldur róið undir sérréttindum kvenna,- en nú tekur út yfir allan þjófabálk,- þetta er náttúrulega algjörlega óverjandi gjörningur, og sýnir hve langt frá góðum ásentingi við erum komin.

Þið, sem skrifuðuð undir þennan skandal; Takið ykkur smástund til að endurhugsa málið, þetta er skömm og svívirða og þið ættuð að afturkalla þessar undirskriftir, eða í það minnsta krefjast endurskoðunar á yfirlýsingunni!!!

Kveðja frá Íslending, sem er alveg að missa trúna á því að Ísland sé eins framúrskarandi frábært, eins og viðkomandi ehfur alltaf reynt að kynna það

Steinunn


mbl.is Ríkisstjórnin segir nei við ofbeldi gegn konum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Aðrar jöklaferðir mögulegar

Stefnan mín var á Snæfellsjökul í sumarfríinu.  Við tókum þessa ákvörðun í fyrra, ég og strákarnir, og spennan var mikil.  Snæfellsjökull er nánast í blóðinu í mér, alin upp við að þetta sé fallegasta fjall/jökull í heimi.  Ég er reyndar á þeirri skoðun að töfrar jökulsins og fegurð, séu meiri en margra annarra svipaðra staða,- hinsvegar var sambúðin við Snæfell á Austurlandi ekki síður töfrandi og margt fjallið hefur heillað mig uppúr skónum síðan þessi innræting átti sér stað. 

Þegar svo kom að því að ætla að skella sér á jökulinn í ár, var fátt um svör hjá fyrirtækinu, sem þó upplýsti mig um að þeir hefðu hætt öllum túrum uppá jökulinn, svona viku áður en ég kom til landsins, vegna umræddrar bráðnunar og sprungumyndunar......Sorglegt, og litlu kútarnir mínir voru ekki minna vonsviknir en mamman. Samt ánægjulegt að menn eru að gæta varúðar framyfir fégræðgi,- ég held að Bláa Lóns mönnum væri óhætt að læra af þessu fólki, skemmst að minnast fyrir nokkrum árum þegar þeir héldu áfram að selja ofaní Lónið, þegar vitað var að manneskju var saknað,- hún fannst seinna látin í Lóninu.

Það varð okkur svo til happs, að góðviljaðir bentu á möguleika þess að fara á Langjökul í staðinn...... Ég pantaði ferðina með engum fyrirvara, til að ná góða veðrinu í fyrradag,- og við negldum niður þá ferð.  Ég gat samt ekki farið ein með strákana, enda hvorugur með bílpróf, svo þeir mega ekki stýra snjósleða,- svo við enduðum í FRÁBÆRUM félagsskap Guðjóns frænda okkar, sem við endur-kynntumst á ættarmóti um daginn.

Jöklaferða fyrirtækið skaffaði bíl sem pikkaði okkur upp á Kjalvegi, og ók okkur inn að skála.  Þar fengum við fullan galla; skó, hjálma og hanska og var síðan farið með rútu-trölli inn á ystu jökulrönd.  Þar stóð vel uppraðaður sleðaflotinn, við fengum ágætt Security og kennslu briefing, þrjá leiðsögumenn og nú átti að halda af stað.

Snillingurinn undirritaði, sem hefur nú verið með tækjadellu frá unga aldri, hefur aldrei snert snjósleða,- og byrjaði á fyrstu fimmtíu metrunum að klaufast með annað skíðið inná grunnsprungu.  Leiðsögumaðurinn sem var næst á eftir okkur leysti sleðann samstundis, og þetta reyndist vera hið fornkveðna- "fall er faraheill",- því eftir þetta gekk allur túrinn eins og í sögu.  Við fórum ca hálftíma upp, stoppuðum þar í sennilega annan hálftíma að njóta kristaltærs útsýnisins og fjallaloftins (smákryddað að hætti hússins, hvað mér viðkemur) og svo var haldið niður aftur.        Ferðin var öll hin ánægjulegasta, skipulagning og leiðsögumenn til fyrirmyndar og við ákváðum strax í túrnum að fara að ári aftur, sennilega Húsafellsmegin, eða kannski Snæfellsjökullinn verði til friðs næsta ár.......  Það er bara ljóst að mig langar líka að ferðast með þessu fyrirtæki aftur, allir starfsmenn sem við hittum voru til sóma,- kurteisir, jákvæðir og þolinmóðir.  Góðir strákar, og við þökkum fyrir okkur!!!

Snæfellsjökull bíður seinni tíma, vonandi bráðnar hann ekki áður.....

Sumarfríið er enn á fullu gasi, Húsafell um helgina og fiskidagar næstu helgi.  Það er eiginlega of mikið hægt að hafa fyrir stafni hér á sumrin :)

Eigið yndislega Verslunarmannahelgi, og allir félagar í Verslunarmannafélögum,- TIL HAMINGJU MEÐ MÁNUDAGINN,- sorglet að þið verðið eflaust eina fólkið sem vinnur þennan frídag verslunarmanna..... Ekki alveg rökrétt!!!

Kveðja

Steinunn 


mbl.is
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hrísey, þorskar og Langjökull...Fagra Ísland :)

Við komum frá Akureyri í dag, eftir frábæra; plús veðursæla viku með góðu fólki og allskonar uppákomum.  Við ferðuðumst nú ekki ýkja mikið, fórum á Dalvík og nutum venjulegrar hlýju og gestrisini hjá Láru og co. í Bárubúð,- og í gær var það Hrísey. Ákváðum að skella okkur með ferjunni, fara traktorshringinn á eynni og enda heimsóknina með Galloway nautakjötssteik í hádeginu.  Sjáum ekki eftir því!!!

Ferjuferðin var í rjómalogni og glampandi sól, sem hélst út þann dag, sem aðra í ferðinni.  Við skelltum okkur svo beint uppí breyttan heyvagn, sem hangir aftaní traktor með taxa merki á toppnum, og fengum úrvalsgóða leiðsögn um eyna, í ca klukkustund.  Eftir það fórum við uppá Brekku og enduðum með að verðlauna okkur með humarsúðu, Galloway nautalundum og ís......Jammijammijamm.......Finn ennþá bragðið, gerist ekki betra, alveg tær snilld!!!!!

Þegar við snerum aftur á Árskógsströnd, var enn svo gott veður að við ákváðum að renna fyrir fisk á bryggjunni.  Ég veiddi svo vel af þeim gula, að ég er skíthrædd um að fá á mig kvótalög.  Grínlaust, fjórir matvænir þyrsklingar,- einn sem ég henti og svo einn GOLÞORSKUR,- ég ætlaði aldrei að hafa hann upp, hann reyndi ítrekað að draga mig undir bryggjuna.  Yngsti minn var búinn að setja í einn barna-þyrskling og sá eldri ekki í neitt, svo eins og hlakkaði í mömmu þeirra vildu þeir bara fara heim.....   Ég uppgötvaði svo í gærkvöldi að það að flaka fisk, er eins og að læra að hjóla, maður gleymir því ekki,- og var nokk sátt við handbragðið á aflanum.  Við átum steiktan þorsk í kvöldmat, og frystum restina hjá englinum Stefaníu, vinkonu minni, sem hefur þolað okkur alla þessa daga. Er alsæl með allt það góða fólk sem ég hafði tækifæri til að hitta í túrnum, og jafnvel sumt olli nýjum straumhvörfum í mínu lífi.....Skrýtið þetta líf.

Í morgun var svo kominn tími á heimferð.  Við lögðum af stað fyrir hádegi og þegar í Borgarfjörðinn var komið, og ekki hægt að þola lengur við í bílnum; vegna 27 stiga hita úti,- brá ég mér inná söluturn Baulu, hringdi nokkur símtöl til að athuga með ferð á Langjökul fyrir morgundaginn, og hugsaði gott til glóðarinnar að fara svo rakleitt uppí Húsafell og bíða morguns.  Að sníða þessa ferð gekk ekki átakalaust, en við enduðum með að fá samning, en Húsafell datt uppfyrir, þar eð við förum víst Gullfoss megin..... :)

Nú erum við öll að springa úr tilhlökkun, og ekki síður að fá einn frændann með okkur í túrinn!!!

Eins og í fyrra er ég að njóta þess að vera túristi á Íslandi, við erum svo rík af áhugaverðum áfangastöðum, þetta er einstakt og yndislegt!!!!

Eigið gott kvöld mín kæru

Steinunn


Sjónvarpi stolið.....

Einhverntímann fyrir mörgum tunglum, las ég að fréttamaður sem var nýr í starfi, hefði spurt gamalan fréttasnáp, hvað hann skilgreindi sem frétt.

"Nú, þegar hundur bítur mann, er það ekki frétt,- en þegar maður bítur hund, er það frétt" Var svarið......

Mér datt þetta svona í hug í morgun, þegar ég las í Fréttablaðinu og á textavarpi,- að brotist hefði verið inn í Sjónvarpsmiðstöðina, sjónvarði stolið,- og að málið væri í rannsókn....... Shocking

Jæja........ Svei mér þá,- hefði það ekki verið frétt ef brotist hefði verið inn í Sjónvarpsmiðstöðina og frystikistu eða kannski hesti stolið?  Var um eitthvað annað að ræða en að sjónvarpi hefði verið stolið? Og er ekki makalaus stófrétt að sjónvarpi, já einu sjónvarpi var stolið???

Það er gúrkutíð, alveg ljóst,- og mér finnst þetta bara fyndið.  Miklu athyglisverðari voru fréttir af svangri tófu, sem reyndi að næla sér í kvenlegg,- og fór betur á en horfðist fyrir konunni með legginn.  Flokkast það samt ekki undir dýraníðingshátt, gegn villtu dýralífi,- að meina tófunni aðgang að ketinu???  Heppin þessi kona, að við erum ekki búin að vera greind með hundaæði í þessu frábæra, sjúkdómsfría landi!!!

Við erum enn í blíðunni á Akureyri, 22 stig í skugga í morgun,- og ætlum í siglingu til Hríseyjar í dag.  Vonandi er enn hægt að fá Galloway nautasteikur þar....Mmmmmmmmm

Eigið yndislegan dag öllsömul!!!!! 

Steinunn


Sólin og sumarið.....

Enn er veðursæld á Akureyri, en veiðileysi......Við mæðginin fórum með Eyjafjarðarströndinni í gær, hingað og þangað, en urðum ekki vör  :(

Ég fór svo út með vinkonu minni í gærkvöldi, ágætis tilbreyting,- en ótrúlega skrýtið að koma á "sveitaball"  Ég skemmti mér konunglega við að horfa á mannlífið, og "unglingahljómsveitina" sem samanstóð af tveimur körlum, öðrum örugglega komnum vel á sextugsaldur, hinn kannski tíu árum yngri......Og eins og þeir tóku íslenska tónlist ágætlega, þá töpuðu þeir sér algjörlega í gömlu amerísku rokki, sem átti ekkert skylt við danmúskík, og var oft hálfgerð nauðgun á flutningi upphaflegra listamanna.....  En við höfðum bara gaman af þessu, ekkert hægt nema kíma og glotta í kampinn :)

Ætla að klára að njóta helgarinnar, ekkert svosem fréttnæmt í Mogganum, þessi venjulegu bílslys,- af því að menn aka ekki eftir aðsæðum eða samkvæmt reynslu og getu....... Ég er sjálf enn full af skömm, ók aftan á kyrrstæða bifreið í hringtorgi um daginn, og er enn að berja sjálfa mig.  Ég meina, hvernig er hægt að komast slysalaust frá því (fram að þessu) að aka í 12 milljón manna borg, þar sem megnið af umferðarmenningu miðast við frumskógarlögmálið, og bifreiðastjórar eru upp til hópa próflausir og á bifreiðum í stórhættulegu ástandi,- koma svo heim, og aka aftan á kyrrstæðan bíl???? Maður er náttúrulega BJÁNI, og ég skammast mín SVAKALEGA!!!!

Eigið yndislegan og slysalausan dag elskurnar

Steinunn


Agureiri!!!! :)

Eins og ég dáist mikið af Norðlenskunni, hefur mér alltaf þótt gaman að tala um "Agureyri" en ekki Akureyri,- hefur eitthvað að gera með þörf mína til að skemmta skrattanum......

Við mæðginin höfum nú verið hér tvær nætur í fínu yfirlæti, og afbragðsgóðu veðri.  Við erum ekkert að stressa okkur, meira svona afslöppun.  Fórum í sund í gær, en ég verð nú að viðurkenna að mér finnst það ekki afstressandi,- ætti eiginlega að opna sundlaugar eða sundlaugatíma, bannaða börnum, svo maður geti slappað af.  Barnafólk virðist vera á þeirri skoðun að öllum, kunnugum sem ókunnugum,- finnist litlu englarnir þeirra æðisleg krútt.....

Mig vantar þessi gen, og þegar eitthver ókunnugur krakkagrislingur stendur rétt hjá mér, þar sem ég ligg og sleiki sólina, vill jafnvel sofna smá,-þá ákveður krakkinn að nú sé rétti tíminn til að busla, sparka vatni í alla í kringum sig, rennur svo á rassinn og fer að grenja,- þá hverfur áhugi minn fyrir laugunum, eins og dögg fyrir sólu!!!

Nei, ef ég byggi á landinu, myndi ég hiklaust setja af stað baráttu fyrir frið í laugunum!!!! Hehehehehehehe

Ferðalagið er frábært, og ég hef í heildina mjög gaman af öllu saman,- þrátt fyrir barlóm og svartsýnisspár gagnvart verðbólgu og vinnumarkaði.......

Eigið yndislega helgi elskurnar!!!

Kv

Steinunn


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband