Mig langar að deila með ykkur upplifun sem á sér vart margar hliðstæður.
Árið 2004 var ég ráðin til starfa hjá Sameinuðu Þjóðunum, með vinnustað í Bujumbura í Burundi.
Ég kynntist fólki af hinum ýmsu þjóðernum, og þrátt fyrir að ég hafi flutt alfarin til Noregs árið 2010, þá held ég enn miklu sambandi við góða vini sem ég eignaðist þá.
Ein bandarísk kona, varð mér afar náin vinkona. Hún er lögfræðingur hjá SÞ, hér kalla ég hana "B".
Í fyrsta sinn sem ég hitti B, og hún heyrði að ég var Íslendingur, spurði hún áfjáð, hvort ég þekkti vel til í Noregi. Mér fannst spurningin einkennileg og jafnframt lítt spaugileg, en játti að ég hefði bara einu sinni komið þangað, að heimsækja systur mína, sem hefði búið þar í nokkur ár.
B tilkynnti mér þá að hún væri nefnilega af norskum ættum, og dreymdi um að einn daginn kæmist hún í tæri við fólk sem gæti sýnt henni heimahaga ömmu hennar og jafnvel hjálpað henni að finna ættingja sína.
Árin liðu, B fór frá Burundi og til Nairobi, ég fór til Kinshasa i DRC og þrátt fyrir það héldum við góðu sambandi, m.a. heimsótti ég hana tvisvar til Nairobi,- annað skiptið með áðurnefndri systur minni.
Þegar ég flutti til Noregs 2010 talaði B um að nú ætti að vera kominn grundvöllur fyrir því að hún kæmi hingað í heimsókn, og reyndi að finna ættingjana og sjá æskuslóðir ömmu sinnar og ömmusystur.
Það var svo í janúar í ár, að B missti ömmu sína,- þær höfðu verið mjög nánar enda B einkabarnabarn, og hún syrgði ákaft.
Þar með tók hún ákvörðun um að koma til Noregs, og spurði mig hvort ég myndi taka á móti henni og eiginkonu hennar, og reyna að hjálpa henni að finna fjölskylduslóðirnar og jafnvel ættingja.
Sem sannur Íslendingur, sá ég ekki mikið þessu til vandkvæða, og bað B að senda mér allar upplýsingar sem hún hefði, staðarnöfn og kannski vísi að fjölskyldutré....
B sendi mér ótrulega gott fjölskyldutré og fæðingarstaði/greftrunastaði sem hún hafði fengið upplýsingar um frá ömmunni og systur hennar.
Ættin reyndist vera frá Grimstad, sem er næsti bær við bæjarfélagið þar sem ég bý.
Ég heimsótti bæjarskrifstofurnar þar í vor, og sagði starfsmönnum þar frá aðstæðum og að hverju við værum að leita. Mér var afar vel tekið, en bent á að halda tilbaka í minn heimabæ, þar sem minjasafnið væri bæði minja og skjalasafn fyrir sýsluna, og þeir ættu að geta hjálpað mér.
Ég snautaði heim, og fannst þetta dálítið skoplegt,- þar sem umrætt safn var það fyrsta sem ég sá útum gluggann hjá mér, hvern dag :)
Þegar ég mætti með pappírana á safnið, var verið að gera það upp, og var þar með lokað í mestallt sumar.
B var á leiðinni til okkar í lok ágúst, og safnið opnaði þremur vikum fyrr. Þar fékk ég samband við einn "ættargrúskara" sem tók ættartréið til sín, og sagðist myndi leita eins og hann gæti að fjölskyldumeðlimum, sem enn væru á lífi. Við vorum sammála um að það væri aðallega um að ræða tvo bræður, Richard og Ivar Henrikssen,- og kannski eina konu til, sem var líka skráð með einn son. Fyrrnefndur Ivar var skráður giftur konu að nafni "Bitten" (sem er ekki nafn, heldur gæluorð/nafn) og áttu þau tvær dætur. Við vorum sammála um að það yrði snúið að finna dæturnar, þar eð líklegt væri að þær hefðu skipt um fjölskyldunafn við giftingu....Já, þessi mál eru einfaldari á Íslandi :)
Viku áður en B kom, sneri ég aftur á safnið. Minn maður hafði þá leitað og leitað. Hann hafði náð að lagfæra nokkrar villur í ættartrénu, semsé fæðingar og dánarár,- en hann hafði ekki fundið neinn ættingja, að frátöldum fyrrnefndum Richard. Furðulegt nokk, hafði hann ekki fundið tangur né tetur af Ivari bróður hans, og allri hans fjölskyldu,- velti fyrir sér hvort þau hefðu flutt úr landi, eða öll látist.....Þessi Richard var skráður einhleypur, en á lífi,- í Osló..... Símanúmerið gaf hann mér, og þar með lauk hans afskiptum af umleitan minni.
Ég hringdi í númerið, aldraður maður svaraði (ég vissi að bræðurnir voru fæddir 1938 og '41) en hann svaraði mér ekki, og lagði svo á....
Ég hringdi nokkrum sinnum í númerið, sendi SMS með stuttri útskýringu á hversvegna ég væri að reyna að ná í hann,- en engin viðbrögð. Sama var þegar maðurinn minn reyndi að hringja.
B og konan hennar voru hingað komnar, og ég neyddist til að segja henni að við yrðum að gefa okkur,- það væri ekki nokkurn mann að finna á lífi úr fjölskyldunni, en hinsvegar gætum við farið einn daginn út í Fjære kirkju, þar sem fjö0lskyldugrafreiturinn væri, og séð okkur um þar. Fjære kirkja er afar gömul og falleg, og umhverfið yndislegt.
B var að vonum frekar svekkt yfir niðurstöðu málsins, en samt þakklát fyrir það sem við höfðum reynt og sammála um að hún vildi endilega fara í kirkjugarðinn í Fjære.
Það var á fallegum seinsumarmorgni að við fórum af stað, fyrst skyldi haldið til Nedernes í antik búð sem þær stöllur vildu endilega heimsækja, og síðan til Fjære. Að keyra til Fjære frá mér, tekur ca 45mínútur, en aðeins meira með viðkomu í antikbúðinni. Þegar við vorum nýkomnar í antikbúðina, uppgötvaði ég, að ég hafði gleymt kortahaldaranum mínum heima, og þar með bæði greiðslukortum og ökuskírteini...Ég sgði þeim stöllum að við yrðum að snúa við, var ekki smáskúffuð, ég keyri aldrei án ökuskírteinis,- þeim fannst við heldur langt komnar, til að snúa við,- en skildu það vel, að ég sem starfandi rútubílstjóri, gæti ekki verið að þvælast um án ökuskírteinis,- svo við snerum við.
Til að létta andrúmsloftið aðeins, stoppaði ég með þær á ruslahaugunum í bakaleiðinni, þar er svona "bruktbutikk" og mikil flokkun og endurvinnsla, sem B hefur ódrepandi áhuga á, svo þetta létti móralinn helling :)
Þegar heim kom, greip ég kortahaldarann, en nú þurftum við náttúrulega allar að pissa, borða aðeins o.s.frv...Svo við vorum mikið seinna af stað en í upphafi var áætlað. Ekki nokkuð stress, allar í fríi :)
Þegar við komum um eittleytið til Fjære (í stað 1030, eins og til stóð) stóð einn bíll á bílastæðinu, og ein öldruð kona við hlið hans. Ég var þegar þar var komið, orðin svo niðurdregin eftir að hafa ekki náð í neina ættingja B, að ég hugsaði með mér að þarna væri kona sem væri á svipuðum aldri og þeir bræðurnir Henrikssen, og kannski myndi hún eftir þeim sem börnum....Bara eitthvað til að geta sagt vinkonu minni B.....
Ég sneri mér því til þessarar konu, og heilsaði. Hún heilsaði alúðlega á móti. Ég spurði hana hvort hún væri vel kunnug í Grimstad og Fjære. Hún svaraði dræmt, að hún væri jú svolítið kunnug... Ég sagði henni þá af vinkonu minni (sem stóð og horfði og hlustaði á okkur, og skyldi náttúrulega ekki eitt orð) hvernig ég hefði kynnst henni, og hvað hún hefði lengi haft áhuga á að finna sínar rætur í Noregi,- ég sagði henni frá ættartréinu og því fólki sem ég og safnvörðurinn hefðum reynt að finna, ég sagði henni af bræðrunum Henrikssen, þeir gætu kannski verið á hennar reki, ef hún myndi eftir þeim úr æsku,- annar væri á lífi en svaraði ekki síma, hann héti Richard og svo væri það....
Og þá tók sú gamla fram í fyrir mér, og sagði "Ivar"?
Ég missti andann, og stundi "já, þekktirðu þá"??
"Ég er gift Ivari" var svarið...
"Bitten"?? Stundi ég upp
"Veist þú hvað ég heiti" ljómaði sú gamla, eins og sól í heiði, með stóru brosi :) :) :)
Vinkona mín og konan hennar stóðu náfölar og fylgdust með þessu samtali, á hrognamáli, sem þær ekki skilja,- en þegar þarna var komið, höfðu þær fengið með sér hvaða kona þetta var og trúðu ekki sínum eigin eyrum. Vinkona mín hélt í marga daga að ég hefði "sett þetta upp".....
Þau hjónin höfðu verið í kirkjugarðinum í ca tíu mínútur, og voru að flýta sér á hótel í Grimstad. Þau höfðu keyrt heiman að frá sér, fyrir 5-6 klukkustundum, því þau búa hvergi nálægt Grimstad lengur... Ef við hefðum komið á þeim tíma sem við ætluðum, þá hefðum við aldrei hitt þau....
Ivar varð að vonum hálfsjokkeraður, þegar hersingin kom niður í kirkjugarðinn og við Bitten byrjuðum að útskýra málið fyrir honum. Hans fyrstu viðbrögð voru að hreita útúr sér að hann talaði ekki ensku...Konan hans brosti sínu blíðasta og sagði að jú, víst talaði hann aðeins ensku....Svo þegar eðli málsins fór að síastinn hjá honum, þá allt í einu spurði hann hvort B væri dóttir Simon? Hún ljómaði upp og staðfesti það, þá sagði Ivar að ég skyldi þýða fyrir hann að þegar hann var barn á eftirstríðsárunum, þá hefðu alltaf komið svokallaðir "Ameríkupakkar" á pósthúsið, til þeirra. Þar var amma hennar að senda föt af pabba hennar til Ivars, og amerískt tyggigúmmí :) Vinkona mín stóð bara klökk og grét, þegar þarna var komið.....
Richard reyndist vera á lífi og með síma, en hefur verið heilsutæðpur og varla talandi síðan hann fékk heilablóðfall 1986.
Þetta urðu dásamlegir fjölskyldufundir, við eyddum heilum degi með þeim heiðurshjónum daginn eftir. Núna eru þau öll í sambandi, og einnig er B komin í samband við dætur þeirra....
Fyrir mér er þetta enn óútskýranlegt fyrirbæri.
Hér er ég, Íslendingur í risastóru landi með ca fimm milljón íbúum.
Að hitta á akkúrat þessum tímapunkti á þennan ættingja B,- ég er ekki ennþá að ná þessu...
Ekki þær stöllur heldur :)
Kraftaverkin gerast enn,- eitthvað/einhver lét mig gleyma kortunum mínum, þennan dag - það er ég sannfærð um :)
Góðar stundir!!!
Bloggvinir
Jan. 2025 | ||||||
S | M | Þ | M | F | F | L |
---|---|---|---|---|---|---|
1 | 2 | 3 | 4 | |||
5 | 6 | 7 | 8 | 9 | 10 | 11 |
12 | 13 | 14 | 15 | 16 | 17 | 18 |
19 | 20 | 21 | 22 | 23 | 24 | 25 |
26 | 27 | 28 | 29 | 30 | 31 |
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (18.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Ég fékk nú bara gæsahúð Steinunn :)
Dagbjört Ben Guðfinnsdóttir (IP-tala skráð) 22.10.2014 kl. 08:45
Svona kemur lífið manni stundum skemmtilega á óvart! Frábær saga.
Andri Reyr Haraldsson (IP-tala skráð) 22.10.2014 kl. 10:28
Þetta var skemmtileg lesning, það er svo margt skrítið og óvænt sem kemur uppá hjá fólki í "þessum sporum" :)
Ég hef oft furðað mig á slíkum "tilviljunum".
faktkor (IP-tala skráð) 22.10.2014 kl. 14:32
Ég fæ enn gæsahúð, þegar ég hugsa tilbaka til stundarinnar þegar ég vissi hver konan á bílastæðinu var :)
Steinunn Helga Snæland, 22.10.2014 kl. 14:41
Dásamlegt - vekur mann alltaf til umhugsunar hvort "tilviljanir" séu nokkuð til?!
Eygló (IP-tala skráð) 22.10.2014 kl. 20:42
Þakka fyrir þessa góðu örlaga sögu,það er magnað þegar fólk leggur að staðfestu mikið á sig fyrir aðra í góðum tilgangi til að hjálpa ,þá gerast góðir hlutir eins og að sjálfu sér.
Bjarni V Bergmann (IP-tala skráð) 23.10.2014 kl. 03:17
Ótrúleg saga, og það sannast alltaf betur og betur að við erum ekki ein i tilveru okkar, eigum engil sem hjálpar okkur bestu lveðjur
Vigdís (IP-tala skráð) 23.10.2014 kl. 11:36
Þetta er frábært ad lesa. Göldrum líkast bestu kveđjur til þín Steinunn :-)
Ágústa Guđmarsdóttir (IP-tala skráð) 27.10.2014 kl. 20:57
frábær saga ... Það sannast í þessari frásögn að í undirbúningi sem nánast spannar mörg ár og aðkomu margra sem leggjast á eitt við úrlausn þess að þá er alltaf til raunveruleg og fullkomin lausn sem allir stefna að jafnvel þótt að þeir viti ekki af hvorum öðrum. Það mætti rétt eins fullyrða að útkoman væri óumflýjanleg vegna þeirrar elju og ósérhlífni sem lögð var til lausnar þessa máls. Við skyldum aldrei vanmeta afl jákvæðrar hugsunar ef það fer saman með heilbrigðu markmiði ...
daniel (IP-tala skráð) 28.10.2014 kl. 10:46
Er næstum farið að finnast svona atvik "sjálfsögð". Sagan þín toppar þó mínar "tilviljanir" því hún er svo fjölþjóðleg og teygir sig yfir amk þrjár heimsálfur.
Þótt fróðlegt væri að vita hvað veldur, tel ég meira virði að fá að njóta.
Verum þakklát þegar vel gengur :-)
Þorkell Guðnason, 28.10.2014 kl. 13:09
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.