Við komum frá Akureyri í dag, eftir frábæra; plús veðursæla viku með góðu fólki og allskonar uppákomum. Við ferðuðumst nú ekki ýkja mikið, fórum á Dalvík og nutum venjulegrar hlýju og gestrisini hjá Láru og co. í Bárubúð,- og í gær var það Hrísey. Ákváðum að skella okkur með ferjunni, fara traktorshringinn á eynni og enda heimsóknina með Galloway nautakjötssteik í hádeginu. Sjáum ekki eftir því!!!
Ferjuferðin var í rjómalogni og glampandi sól, sem hélst út þann dag, sem aðra í ferðinni. Við skelltum okkur svo beint uppí breyttan heyvagn, sem hangir aftaní traktor með taxa merki á toppnum, og fengum úrvalsgóða leiðsögn um eyna, í ca klukkustund. Eftir það fórum við uppá Brekku og enduðum með að verðlauna okkur með humarsúðu, Galloway nautalundum og ís......Jammijammijamm.......Finn ennþá bragðið, gerist ekki betra, alveg tær snilld!!!!!
Þegar við snerum aftur á Árskógsströnd, var enn svo gott veður að við ákváðum að renna fyrir fisk á bryggjunni. Ég veiddi svo vel af þeim gula, að ég er skíthrædd um að fá á mig kvótalög. Grínlaust, fjórir matvænir þyrsklingar,- einn sem ég henti og svo einn GOLÞORSKUR,- ég ætlaði aldrei að hafa hann upp, hann reyndi ítrekað að draga mig undir bryggjuna. Yngsti minn var búinn að setja í einn barna-þyrskling og sá eldri ekki í neitt, svo eins og hlakkaði í mömmu þeirra vildu þeir bara fara heim..... Ég uppgötvaði svo í gærkvöldi að það að flaka fisk, er eins og að læra að hjóla, maður gleymir því ekki,- og var nokk sátt við handbragðið á aflanum. Við átum steiktan þorsk í kvöldmat, og frystum restina hjá englinum Stefaníu, vinkonu minni, sem hefur þolað okkur alla þessa daga. Er alsæl með allt það góða fólk sem ég hafði tækifæri til að hitta í túrnum, og jafnvel sumt olli nýjum straumhvörfum í mínu lífi.....Skrýtið þetta líf.
Í morgun var svo kominn tími á heimferð. Við lögðum af stað fyrir hádegi og þegar í Borgarfjörðinn var komið, og ekki hægt að þola lengur við í bílnum; vegna 27 stiga hita úti,- brá ég mér inná söluturn Baulu, hringdi nokkur símtöl til að athuga með ferð á Langjökul fyrir morgundaginn, og hugsaði gott til glóðarinnar að fara svo rakleitt uppí Húsafell og bíða morguns. Að sníða þessa ferð gekk ekki átakalaust, en við enduðum með að fá samning, en Húsafell datt uppfyrir, þar eð við förum víst Gullfoss megin..... :)
Nú erum við öll að springa úr tilhlökkun, og ekki síður að fá einn frændann með okkur í túrinn!!!
Eins og í fyrra er ég að njóta þess að vera túristi á Íslandi, við erum svo rík af áhugaverðum áfangastöðum, þetta er einstakt og yndislegt!!!!
Eigið gott kvöld mín kæru
Steinunn
Bloggvinir
Jan. 2025 | ||||||
S | M | Þ | M | F | F | L |
---|---|---|---|---|---|---|
1 | 2 | 3 | 4 | |||
5 | 6 | 7 | 8 | 9 | 10 | 11 |
12 | 13 | 14 | 15 | 16 | 17 | 18 |
19 | 20 | 21 | 22 | 23 | 24 | 25 |
26 | 27 | 28 | 29 | 30 | 31 |
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (20.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 3
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 3
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Sæl Steinunn.. þú ferð á langjökul frá Skálpanesi. Ég á nokkrar myndir þaðan síðan í snemma í júlí.. ég fer hinsvegar með hóp í landmannalaugar í glimrandi veðri.. ég vinka þér ofan af Ljóta polli ;)
Óskar Þorkelsson, 29.7.2008 kl. 22:18
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.