Sorglegt og óviðunandi

Hvernig má það vera að í nútímasamfélagi, séu börn enn að stríða við framkomu að þessu tagi?

Það er greinilega pottur brotinn, ekki aðeins hjá þeim börnum sem eru kvalarar/gerendur, hér,- heldur öllum sem að þeim standa.  Það er ekki spurning, ef foreldrar barnanna sem þessi drengur átti samskipti við, hefðu gefið sér örlitla stund, til að rækta með þeim skilning og samkennd,- hefði dæmið snúið öðruvísi.  Hver voru viðbrögð fólksins sem starfar með drenginn? Hvað gerðu leikskólakennarar og síðar kennarar, til að styðja þennan einstakling félagslega?

Er ekki kominn tími til, að fólk átti sig á, að námsgeta barna er aðeins toppurinn á ísjakanum, hvað varðar sáluheill þeirra og hamingju?  Félagslegi þátturinn mun hafa miklu meiri áhrif, til langs tíma.  Einstaklingur, sem er stöðugt undir aðkasti og árásum,- er ekki líklegur til að eiga sér mikla möguleika í lífinu, hvort sem er í námi eða leik,- eineltið mun heltaka allt líf hans og taka alla hans athygli.

Hvenær ætlar samfélagið að krefjast þess að fólk sé dregið til ábyrgðar, þegar börn búa við slíka kvöl?

Ábyrgðin á að vera hjá foreldrum gerenda og öllu því starfsfólki, sem mun í skólakerfinu, hafa samskipti við þolendur/gerendur. 

Bretar hafa nú dregið foreldra til ábyrgðar fyrir skrópi barna sinna. Hvernig væri að Íslendingar drægju foreldra til ábyrgðar fyrir sadískri hegðun sinna barna?  Samúð, skilningur, kærleikur og opinn hugur gagnvart öðru fólki,- er lærð hegðun. Ef foreldrar mega ekki vera að því að kenna börnum sínum þessa grunnþætti manngæsku og framkomu,- þá er eitthvað mikið að. Geti skólastarfsmenn ekki gefið sér tíma til að standa vörð um þá sem verða fyrir aðkasti, einelti eða annarri andfélagslegri hegðun, sem beinist gegn einstaklingum, sem þeim er treyst fyrir,- þá eru þeir ljóslega á rangri hillu í lífinu.  Það traust sem þessu fólki er sýnt,- á hverjum degi sem foreldrar setja börn sín í þeirra hendur,- er mölbrotið, þegar barnið líður félagslega þjáningu á skólatíma.

Gleymum ekki að afskiptaleysi/félagsleg einagrun, er líka einelti. Maðurinn er félagsvera, og það kemur sterkt fram í þessu viðtali, hve mikið kvalræði það er, að vera afskiptur. Það stingur líka í hjartað, að heyra greinilega hvað það, að "hafa verið öðruvísi", fylgir fólki frameftir öllum aldri.  Það ætti enginn að þurfa að burðast með svo tregafullar æskuminningar.

Það er alveg ótrúlegt að foreldrafélög og skólayfirvöld séu svo upptekin af því að safna peningum í hitt og þetta, eða berja bókvitið inn í börnin okkar,- að þau hafi engan tíma eða áhuga á að koma að þessu eldgamla og hræðilega vandamáli.  Hjálpa börnum til að mynda með að gera þau að stuðningsaðilum við nýnema, skapa meiri hópvinnu í frístundum,- og gefa ekki eftir að allir eigi jafnan rétt á að taka þátt, o.s.frv.

Nei, því miður þá er mun meiri athygli á íþróttastjörnurnar og aðra sterkari karaktera,- sem eru í raun að spjara sig ágætlega, og þurfa ekki svo mikla athygli eða stuðning.

Mér er alltaf ofarlega í minni, þegar skólastjóri sagði tveimur mæðrum,- sem áttu drengi, sem höfðu liðið stöðugt einelti,- "að skólinn bæri ekki ábyrgð á að skaffa drengjunum vini"....Þetta var yfirlýsing, sem fylgdi þvi að loksins höfðu aðrir foreldrar og skólastarfsmenn sett gerendunum mörk, og þessir tveir drengir voru ekki undir líkamlegum og andlegum árásum, á hverjum degi,- eins og fram að því.  Hinsvegar voru þeir i staðinn, settir   "á frost",- fengu ekki að taka þatt í neinu, og hefðu eins getað verið vofur á göngum skólans, og jafnvel í tímum. Þeir áttu ekkert félagslíf utan skóla heldur.  En skólinn "bar ekki ábyrgð á að skaffa þeim vini"!!! Fullorðið fólk, með sérmenntun í að ábyrgjast þessa einstaklinga, hafði ekki meiri einurð eða áhuga á vellíðan skjólstæðinga sinna, en þetta!!

Þetta ástand er búið að líðast í alltof langan tíma,- og óþarft að benda á, að það versnar með hverri kynslóð,- af einhverjum orsökum, er eins og grimmdin færist stöðugt í aukana, samviskuleysið vex. 

Ég tek ofan fyrir hverjum þeim, sem eins og foreldrarnir í þessu viðtali, spyrna við fótum og segja að það sé nóg komið. Ég vona að börnin sem þau eru að styðja, muni njóta góðs af. Mér er samt spurn, hvort ekki sé sterkari leikur að öll hagsmunasamtök barna, séu undir einum hatti,- og nái þá frekar fram einhverjum viðhorfsbreytingum. Það skiptir engu máli, af hverju börnin okkar eiga undir högg að sækja,- hvort þau tala öðruvísi, eru stór, lítil, hölt, klæða sig öðruvísi eða skera sig úr "hópnum" með öðrum hætti,- þau eiga öll sama rétt á mannúðlegri framkomu samfélagsins!!!

Horfum í eina átt, börnin eru framtíðin og eiga rétt á að geta horft tilbaka síðar, og mun góða tíma......

Góðar stundir

Steinunn


mbl.is Hann var alltaf einn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Óskar Þorkelsson

takk fyrir þennan frábæra pistil og þörfu áminningu Steinunn !!

Óskar Þorkelsson, 17.9.2009 kl. 09:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband